Ávarp formanns

Á vormánuðum undirrituðu Samtök atvinnulífsins Stöðugleikasamninginn, langtímakjarasamning við alla stærstu samningsaðila samtakanna á almennum vinnumarkaði. Viðræður höfðu þá staðið yfir við verkalýðsfélögin í meira en ár, en þær hófust þegar að loknum þeim skammtímasamningum sem gerðir voru undir lok árs 2022. Stöðugleikasamningnum er ætlað að stuðla að minni verðbólgu sem geti skapað skilyrði fyrir lækkun vaxta, jafnframt því að viðhalda kaupmætti launafólks. Samningsaðilarnir voru sammála um þessi markmið og grundvallaðist öll vinna við gerð samninganna á þeim. Á tímabili leit út fyrir að komið gæti til átaka í deilunni og að enn yrði ósamið við jafndægur að vori. Þar skipti sameiginleg sýn samningsaðila um hóflegar launahækkanir, aukna verðmætasköpun og stöðugleika í hagkerfinu sköpum. Þótt oft séu eðlilega skiptar skoðanir um einstaka þætti við samningaborðið, þá stóð upp úr að almennt ríkir traust á milli aðila og því náðist niðurstaða sem byggir á sameiginlegri sýn um hóflegar launahækkanir, aukna verðmætasköpun og efnahagslegan stöðugleika.

Til þess að áform samningsaðila um efnahagslegan stöðugleika skili árangri verða aðrir samningar um kaup og kjör að virða þá niðurstöðu sem þegar er fengin og semja innan ramma Stöðugleikasamningsins. Þróun verðbólgu næstu misserin grundvallast á því að ríki og sveitarfélög haldi aftur af útgjöldum og komi í veg fyrir svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaðnum, sem við þekkjum því miður alltof vel hér á landi. Það má heldur ekki dragast mjög að niðurstaða fáist um samninga hins opinbera við stéttarfélögin því það skapar óvissu um verðbólguvæntingar og getur hugsanlega leitt til þess að Seðlabankinn fresti nauðsynlegum vaxtalækkunum öllum til tjóns.

Mikilvægt er að fyrirtækin í landinu haldi verðhækkunum í skefjum eins og frekast er unnt. Ríkið, stofnanir þess og fyrirtæki verða að halda aftur af hækkunum á gjaldskrám og það sama á við sveitarfélög og fyrirtæki þeirra. Hærri gjöld til hins opinbera eiga sinn þátt í verðbólgunni og því geta ríki og sveitarfélög ekki skorast undan fullri þátttöku í að skapa nauðsynlegan efnahagslegan stöðugleika í landinu til hagsbóta fyrir fólk og fyrirtæki. Þetta þarf að vera leiðarljós ríkisfjármálanna.

Vinni allir armar hagstjórnarinnar saman ætti að draga ört úr verðbólgunni og vextir að geta lækkað öllum til hagsbóta.

Verðbólga og vextir

Sífellt betri lífskjör á Íslandi hafa byggt á aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Fyrirtækin verða að búa við sambærileg rekstrarskilyrði og best gerast í nálægum löndum.

Regluverk stjórnvalda má ekki íþyngja fyrirtækjum óeðlilega. Því miður hefur regluverk sem byggir á EES-samningnum verið innleitt hér með meira íþyngjandi ákvæðum en nauðsyn krefur með því sem kallað hefur verið gullhúðun. Nauðsynlegt er að þessu linni og að skref verði stigin til baka. Stofnanir ríkisins sem koma að reglusetningunni hafa í mörgum tilvikum haft frumkvæði að þessari gullhúðun vegna þess að þær telja það auðvelda eftirlit eða gagnast stofnunum með öðrum hætti. Þetta er ólíðandi og hér verða ráðamenn að grípa í taumana. Hér má nefna skilgreiningu á örfyrirtækjum sem er öðruvísi hér en annars staðar og íþyngir til að mynda sprotafyrirtækjum óeðlilega. Sama á við regluverk um ferli til að hefja framkvæmdir, sem dæmi má nefna allar framkvæmdir sem tengjast orkuframleiðslu og flutningi raforku.

Þegar vextir lækka skapast betri skilyrði fyrir fyrirtækin til að ráðast í fjárfestingar, endurnýja tækjabúnað og efla vöruþróun, nýsköpun og markaðssókn. Það er eina leiðin til að tryggja betri lífskjör hér á landi og til að halda í við nágrannaþjóðir okkar. Augljóst er að lægri vextir hafa jákvæð áhrif á heimilisbókhald fjölskyldna og að þessu leyti er fólkið í landinu og fyrirtækin í sama báti. Þessir sameiginlegu hagsmunir skiptu öllu máli við gerð Stöðugleikasamningsins.

Vonandi bera aðrir gæfu til að komast að sömu niðurstöðu.

Að lokum

Í september síðastliðnum tók Sigríður Margrét Oddsdóttir við sem forstjóri Samtaka atvinnulífsins. Hún kom til okkar frá starfi sem framkvæmdastjóri Lyfju hf., hefur að baki mikla reynslu af rekstri og úr stjórnum margra fyrirtækja og er með menntun á sviði rekstrar og stjórnunar. Sigga Magga hefur reynst okkur ákaflega vel og ásamt þéttum og góðum hópi starfsfólks samtakanna var hún lykilmaður í að ná farsælli niðurstöðu í nýgerðum kjarasamningum.

Þar skipti einnig miklu að framkvæmdastjórn og stjórn SA stóðu þétt að baki samninganefndarinnar okkar. Samstaða í okkar röðum er nauðsynleg til að árangur náist.

Ég þakka stjórn SA, stjórnum aðildarsamtaka og starfsmönnum öllum kærlega fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf á árinu. Þá vil ég sérstaklega þakka stjórnendum aðildarfyrirtækja okkar fyrir samstarfið á krefjandi starfsári.

Eyjólfur Árni Rafnsson,

formaður Samtaka atvinnulífsins