Menntadagur atvinnulífsins var haldinn í ellefta sinn undir yfirskriftinni Göngum í takt: Er menntakerfið að halda í við þarfir atvinnulífsins?
Á fundinum kynntu SA og aðildarsamtök uppfærða greiningu á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar í því augnamiði að skilgreina hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur verði ekki hamlandi fyrir vöxt í atvinnu- og efnahagslífi. Rödd atvinnulífsins fékk að heyrast sem fyrr og ráðherrar málaflokksins mættu í umræður þar sem menntakerfið var krufið með tilliti til færniþarfar á vinnumarkaði.
„Í dag horfum við enn fram á að fleiri þurfi að ljúka námi við hæfi og draga þurfi úr brottfalli. Vinnuaflsskortur má nefnilega ekki verða dragbítur á íslensku atvinnu- og efnahagslífi,“
Í kynningu Sigríðar Margrétar Oddsdóttur kom meðal annars fram að aðeins 43% stjórnenda telji menntakerfið uppfylla færniþörf síns fyrirtækis vel í dag. Sömu sögu er síðan að segja þegar litið er til næstu fimm ára. Menntakerfið skarar ennþá fram úr þegar kemur að því að búa til opinbera starfsmenn og 60% stjórnenda í opinberri stjórnsýslu telja menntakerfið koma til með að mæta færniþörf þeirra á næstu fimm árum. Þá eru stjórnendur í atvinnulífinu allt eins líklegir til að telja að menntakerfið muni ekki mæta þörfum þeirra næstu fimm árin.
Atvinnulífið skilgreindi nánar hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur verði ekki hamlandi fyrir vöxt í atvinnu- og efnahagslífi:
Kynningu Sigríðar Margrétar má lesa hér.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, veitti loks menntaverðlaun atvinnulífsins venju samkvæmt þeim fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Elko var valið Menntafyrirtæki ársins og Bara tala hlaut Menntasprotann.
Hér má horfa á Menntadaginn í heild sinni.
Líkt og síðustu ár tók SA þátt í og studdi við alþjóðlega verkefnið Ungir frumkvöðlar. Með verkefninu er ungt fólk í framhaldsskólum hvatt til að leggja fram hugmyndir um nýjungar sem gætu orðið grunnur að fyrirtækjum. Leiðbeinendur á vegum verkefnisins hafa séð til þess að nemendur hljóti aðstoð við að þróa hugmyndir sínar og við gerð viðskiptaáætlunar.
Árið 2024 var fyrirtækið Netaprent valið fyrirtæki ársins í samkeppni Ungra frumkvöðla, Junior Achievement á Íslandi. Netaprent framleiðir þrívíddarprentefni sem er unnið úr notuðum fiskinetum.
Samtök atvinnulífsins standa vörð um íslenska tungu og hafa unnið að verkefnum sem ætlað er að styrkja íslenska máltækni. SA eru stoltur stofnaðili Almannaróms miðstöðvar máltækni, sem ber ábyrgð á framkvæmd máltækniáætlunar stjórnvalda. Þá standa samtökin fyrir reglulegri fræðslu og hvatningu til allra fyrirtækja sem vilja styrkja íslenskuna og verjast erlendum áhrifum í gróskumiklu alþjóðaumhverfi.
Á vormánuðum 2024 var áætlun um íslenska máltækni kynnt á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Áætlunin undirstrikar mikilvægi þess að tryggja stafræna framtíð tungumálsins og var unnin af stýrihóp skipuðum af menningar- og viðskiptaráðherra. Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður málefnasviðs SA sat í stýrihópnum fyrir hönd atvinnulífsins. Af þessu tilefni lét Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hafa eftir sér:
„Þetta er einmitt markmið næstu máltækniáætlunar: Að tryggja hagnýtingu þeirra máltækniinnviða sem hafa verið smíðaðir og styðja við fyrirtæki í því verkefni að þróa tæknilausnir sem skilja og tala íslensku. Við erum að tryggja það að íslenskan verði ekki skilin eftir í gífurlega hraðri tækniþróun heimsins. Við viljum tryggja það að þegar ný tæknilausn kemur á markað sem gjörbyltir innri starfsemi fyrirtækja, og getur sparað starfsfólki tíma og vinnu, þá sé sú tækni á íslensku,"
Áætlunin telur fram sjö afmarkaðar tillögur og kjarnaverkefni og byggir á fyrri máltækniáætlun menningar- og viðskiptaráðuneytisins:
Samtök atvinnulífsins eiga í góðu samstarfi við fjölda aðila um framþróun og mikilvæg verkefni í íslensku menntakerfi. Þar á meðal er verkefnið Graphogame sem var sett á laggirnar í viku íslenskrar tungu.
Graphogame er tölvuleikur sem hefur verið staðfærður á 11 tungumál um allan heim og hlaut á dögunum UNESCO menntaverðlaunin fyrir afburðaárangur. Þetta er alþjóðlegur lestrartölvuleikur sem hefur verið aðgengilegur öllum finnskum börnum undanfarin ár í lestrarnámi þeirra með góðum árangri. Leikurinn grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta braut. Nú er unnið að staðfærslu leiksins á íslensku og prófunum á honum.
Fulltrúar norræns samstarfsnets um fullorðinsfræðslu (NVL) hittust í Reykjavík í vor. Á fundinum var fjallað um áhrif gervigreindar á vinnumarkaðinn með hliðsjón af færni á vinnumarkaði og hvernig hægt sé að nýta sé gervigreind t.d. í fullorðinsfræðslu á komandi árum.
NVL er norrænt tengslanet um nám fullorðinna og norrænn vettvangur fullorðinsfræðslu þar sem athygli er beint að nýsköpun, miðlun og árangri. NVL hvetur til samræðu og þverfaglegs samstarfs á milli ólíkra tengslaneta, kemur á nýjum netum og eflir framlag þeirra til norræns samstarfs.