Málefnastarf

Umhverfis- og sjálfbærnimál

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á mikilvægi þess að huga að þremur stoðum sjálfbærrar þróunar: vernd umhverfisins, félagslegri velferð og efnahagsvexti. Tengja þarf saman grunnstarfsemi fyrirtækja og þá hugsun að búa til virði til langs tíma.

Starfsemi allra fyrirtækja hefur áhrif á umhverfið. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra hafa um árabil hvatt fyrirtæki til þess að lágmarka þau áhrif. Sjálfbær nýting auðlinda er lykillinn að farsælum rekstri á mörgum sviðum og fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á umhverfismál.  

Sjálfbærni er lykilþáttur í sterku hagkerfi og mikilvægt er að ganga vel um takmarkaðar auðlindir jarðar. Tenging árangurs í umhverfis- og sjálfbærnimálum við lækkun kostnaðar mun leiða til aukinnar verðmætasköpunar, sem er undirstaða bættra lífskjara. Tækifærin eru til staðar og miklir hagsmunir eru fólgnir í því að vera leiðandi á sviði grænna og sjálfbærra atvinnuvega.

Samtök atvinnulífsins beita sér fyrir einföldun á regluverki, innleiðingu á hagrænum hvötum, takmörkunum á íþyngjandi kvöðum og að stjórnvöld skapi umhverfi sem leyfir nýsköpun, þá sérstaklega í umhverfis- og loftslagsmálum, að blómstra. 

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins eru samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda en vegvísarnir voru unnir á forsendum íslensks atvinnulífs með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Mikil áhersla var lögð á víðtækt samráð við gerð vegvísanna til að þeir endurspegluðu fjölbreytileika íslensks atvinnulífs og til að efla umræðu um viðfangsefnið innan atvinnugreina.

Guðlaugur Þór Þórðarson ,umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt leiðtogum atvinnugreinanna: Gylfa Gíslasyni, Katrínu Georgsdóttur, Kristrúnu Tinnu Gunnarsdóttur, Steinunni Dögg Steinsen, Álfheiði Ágústsdóttur, Ólafi Marteinssyni, Jens Garðari Helgasyni, Kristínu Lindu Árnadóttur, Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur, Birgi Guðmundssyni og Agli Jóhannssyni.

Vegvísarnir ramma inn tillögur um aðgerðir og úrbætur sem snúa að atvinnulífinu og stjórnvöldum, til að loftslagsmarkmið stjórnvalda um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 og lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 náist. Markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði Grænþing.

Mikil vinna fór í gerð vegvísanna en haldnar voru 15 vinnustofur á fyrstu mánuðum ársins og mörg hundruð manns komu að vinnunni við að gera ítarlegar greiningar á því hvernig ná mætti loftslagsmarkmiðunum. Fulltrúar ellefu atvinnugreina kynntu vegvísa sína á Grænþingi  í byrjun júní 2023 og afhentu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem geta stuðlað að auknum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda atvinnugreina. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum er að opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir ásamt því að tryggja samkeppnishæfni og fjárfestingargetu fyrirtækja. Loftlagsvegvísar atvinnulífsins veita stjórnvöldum ítarlegar upplýsingar um þær áskoranir sem atvinnulífið stendur frammi fyrir auk skýrra tillagna um aðgerðir og úrbætur til skemmri og lengri tíma.

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök binda miklar vonir við áframhaldandi samstarf og að stjórnvöld taki tillit til vegvísanna við aðgerðaráætlanir sínar og stefnumörkun svo hægt sé að ná bættum árangri í loftslagsmálum.  

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði haustið 2022 stýrihóp til að vinna tillögur fyrir gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Samtök atvinnulífsins voru með fulltrúa í stýrihópnum sem skilaði af sér skýrslu til ráðherra þann 28. september undir yfirheitinu Loftslagsþolið Ísland og innihélt tillögur sem fólu í sér:

Hópurinn var einnig ráðgefandi fyrir samráðsferli vegna undirbúnings Landsáætlunar, sem fól í sér þrettán vinnustofur með hagaðilum 2022-2023, en um 300 manns tóku þátt í vinnunni.

Hluti stýrihóps um tillögur að gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Fulltrúar úr helstu geirum atvinnulífsins tóku virkan þátt í vinnustofum vegna m.a. vatns og fráveitu, samgangna, mannvirkja, skipulagsmála, vátrygginga, fjármálafyrirtækja, orkumála, sjávarútvegs, fiskeldis og ferðaþjónustu og lögðu því hönd á plóg til að finna leiðir til að snúa vörn í sókn í glímunni við áhrif loftslagsbreytinga.  

Aðlögunaraðgerðir eru nauðsynlegar vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar og því er mikilvægt að horfa til loftslagsþols byggða, innviða, atvinnuvega o.fl. þátta. Horfa þarf á stóru myndina þegar kemur að loftslagsbreytingum og heildrænt skipulag þarf til að takast á við þetta mikilvæga verkefni.

Umhverfismánuður atvinnulífsins

Í tengslum við Umhverfisdag atvinnulífsins var allur nóvembermánuður eyrnamerktur umhverfismálum og þá sér í lagi Loftslagsvegvísum atvinnulífsins.  

Fróðlegir umræðuþættir voru sýndir alla þriðjudaga og fimmtudaga í nóvember, þvert á atvinnugreinar en hægt er að nálgast þættina á öllum helstu streymisveitum. Í tilefni af umhverfismánuði atvinnulífsins voru félagsmenn Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka einnig með ,,Instagram yfirtöku“ þar sem fylgjendur fengu að skyggnast inn í sjálfbærnistarf Jáverks, Ölgerðarinnar, VÍS og Samkaups.

Ljóst er að atvinnulífið lætur sitt ekki eftir liggja í þessum efnum og óumdeilt er að fyrirtæki eru best til þess fallin að greina tækifæri og leita lausna tengdum loftlagsmálum í atvinnustarfsemi.  

Stjórnendur fyrirtækja og framtakssamir einstaklingar í íslensku atvinnulífi eru sífellt að bregðast við breyttu umhverfi, setja sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og leggja sitt af mörkum til að draga úr losun koltvísýrings frá sinni starfsemi.  

 Atvinnulífið tekur hlutverki sínu alvarlega og mörg fyrirtæki ganga lengra en lög og reglur segja til um þegar kemur að áhrifum frá starfsemi fyrirtækja.

Umhverfisdagur atvinnulífsins - Á rauðu ljósi

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður sem var haldinn í níunda sinn þann 29. nóvember 2023 í Hörpu. Að deginum stóðu Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. 

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tóku þátt í pallborðsumræðum .

Dagurinn var tileinkaður Loftslagsvegvísum atvinnulífsins sem afhentir voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra á Grænþingi sumarið 2023. Skoðaðar voru þær tillögur sem komu fram í vegvísunum, þvert á atvinnugreinar, og snúa að orkuframleiðslu og aðgengi að orku, einföldun regluverks, fjárhagslegum hvötum til fjárfestinga og innviðauppbyggingu. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að ráðast strax í aðgerðir, líkt og þær sem dregnar eru fram í Loftslagsvegvísunum, til þess að sem samfélag sitjum ekki föst á rauðu ljósi. Samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda var því í forgrunni á deginum um hvernig er hægt að ryðja hindrunum úr vegi svo við sem samfélag komumst saman á grænt ljós.

Dagskrá dagsins lauk með afhendingu á Umhverfisverðlaunum atvinnulífsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins var Landsvirkjun en í ár var horft sérstaklega til aðgerða í loftslagsmálum. Framtak ársins á sviði loftslagsmála átti Carbon Recycling International en í ár var leitað nýrra lausna sem stuðla að samdrætti í losun.  

Sjálfbærnireglugerðir Evrópusambandsins

Sú þróun sem er að eiga sér stað á regluverki Evrópusambandsins (ESB) og er búið að innleiða eða stendur til að innleiða hérlendis á sviði sjálfbærni er fjölbreytt og gerir umfangsmiklar kröfur til íslensks atvinnulífs.  

Dæmi um slíkar reglugerðir eru aukin upplýsingagjöf tengd sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (SFDR) og reglugerð til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu (EU Taxonomy), en þessar tvær reglugerðir tóku gildi þann 1. júní 2023. Fleiri reglugerðir hafa verið samþykktar eða eru í samþykktarferli og má þar nefna Corporate Sustainability Reporting Directive (CSRD) og EU Corporate Sustainability Due Diligence Directive (CSDDD).

Þann 10. maí 2023 héldu Samtök atvinnulífsins hagnýtan fund um sjálfbærnireglugerðir ESB ásamt Deloitte, Skattinum og Landsvirkjun en fundurinn var fyrir fyrirtæki sem falla undir Flokkunarreglugerð ESB (EU Taxonomy) og sjálfbærniupplýsingagjöf stærri fyrirtækja (CSRD).

Alþjóðlegar reglur og skuldbindingar ásamt stefnumörkun og settum markmiðum stjórnvalda hafa hvatt fyrirtæki til umbóta. Hins vegar þurfa stjórnvöld að skapa samkeppnishæf skilyrði og innleiða fleiri hagræna hvata svo fyrirtæki geti fylgt eftir umfangsmiklum kröfum hinna ýmsu sjálfbærnireglugerða ESB. Efla þarf leiðbeiningar- og upplýsingarhlutverk þeirra stofnana sem framfylgja reglugerðunum, en þörf er á skýrari og aðgengilegri upplýsingum til fyrirtækja sem falla undir reglugerðirnar.

Samtök atvinnulífsins beita sér fyrir einföldun á regluverki og sporna gegn gullhúðun regluverks. Atvinnulífið hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld innleiði ekki EES-reglur með meira íþyngjandi hætti en nágrannalöndin og setji ekki heimagerð ákvæði í frumvörp án þess að greina hvaða afleiðingar þau geti haft.

Einföldun regluverks og aukið gagnsæi í loftslagshagstjórn landsins eru mikilvægar vörður á leið okkar að loftslagsmarkmiðum Íslands.  

Græn umskipti á vinnumarkaði

Undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2023 boðaði félags- og vinnumarkaðsráðherra til þríhliða fundar á Íslandi undir yfirskriftinni Green Transition on the Nordic Labor Market: A Tripartite Dialogue milli norrænna vinnumarkaðsráðherra og aðila vinnumarkaðarins á Norðurlöndunum til að ræða helstu áskoranir og tækifæri réttlátra grænna umskipta á vinnumarkaði. Samtalið fór fram undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og til grundvallar lá viljayfirlýsingin Reykjavik Memorandum of Understanding.

Í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að horfa til tækifæra og áskorana grænna umskipta til að tryggja að þau verði réttlát og treysti hin sameiginlegu gildi á norrænum vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins voru með fulltrúa í vinnuhópnum sem sá m.a. um skipulagningu á fundinum, samskipti og aðkomu annarra  atvinnurekandasamtaka á Norðurlöndunum o.fl.

Til grundvallar umræðunum í Hörpu var ný skýrsla frá norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio. Þar er fjallað um áhrif grænna og réttlátra umskipta, auk þess sem tekin eru saman dæmi frá ríkjunum um það á hvaða vettvangi hægt sé að ná sameiginlegum, þríhliða árangri við hin grænu umskipti.  

Global Compact

Samtök atvinnulífsins, ásamt hópi fyrirtækja, komu að því að stofna betri umgjörð fyrir UN Global Compact (UNGC) - sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ábyrga viðskiptahætti - hér á landi í lok árs 2022 eftir að hafa sinnt hlutverki tengiliðs Íslands við UNGC um langt skeið. Markmiðið var að efla samstarf íslenskra aðila að UNGC út fyrir landsteinana með því að stuðla að ráðningu svæðisstjóra fyrir Ísland. Í byrjun árs 2023 réðu Samtök Sameinuðu þjóðanna um ábyrgða viðskiptahætti því Auði Hrefnu Guðmundsdóttur sem svæðisstjóra fyrir Ísland.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, talaði á kynningarviðburði UNGC á Íslandi.

Í kjölfarið hófu samtökin formlega starfsemi á Íslandi og ráðgefandi stjórn var skipuð en Samtök atvinnulífsins tóku sæti í stjórninni. Samtök atvinnulífsins sáu einnig um fundarstjórn og voru með erindi um sjálfbærni, tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og áhrif þeirra breytinga sem munu verða á Evrópuregluverkinu á komandi misserum á kynningarviðburði UNGC á Íslandi sem fór fram í Hörpu í lok maí  2023.  

Fyrirtæki geta notað Global Compact til þess að gera viðskiptavinum sínum, birgjum og opinberum aðilum grein fyrir sjálfbærnistefnu sinni og hvernig henni er framfylgt. Aukin krafa er um að gerð sé grein fyrir hvernig þessum málum er háttað innan fyrirtækja og  í sumum tilfellum er stefnan forsenda viðskipta. Global Compact er því verkfæri sem aðstoðar fyrirtæki við að ramma inn stefnu fyrirtækisins á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og tengja hana við grundvallargildi rekstrar fyrirtækisins.

Árið 2015 settu 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, sér sameiginleg markmið – 17 heimsmarkmið um betri heim - sem í grunninn fela í sér að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt.