Kjarasamningar

Á haustmánuðum 2023 mörkuðu Samtök atvinnulífsins stefnu um gerð langtímakjarasamninga sem stutt gætu við verðstöðugleika og bætt lífskjör. SA og breiðfylking stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands voru einhuga um að mikilvægasta verkefnið væri að ná niður verðbólgu og háu vaxtastigi. Stöðugleikasamningurinn markar tímamót á vinnumarkaði þar sem launabreytingar í fjögurra ára kjarasamningi og samstarf samningsaðila stuðla að stöðugleika og fyrirsjáanleika fyrir atvinnulíf og launafólk.

Mikilvægasta verkefni Samtaka atvinnulífsins síðustu mánuði hefur verið að ná skynsömum kjarasamningum sem byggja undir efnahagslegan stöðugleika komandi ára. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningar verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Vinna við Stöðugleikasamninginn hófst strax í kjölfar undirritunar Brúarsamninganna í árslok 2022.

Í aðdraganda kjaraviðræðna síðasta haust lá fyrir aðkaupmáttur hér á landi hefði aukist meira en á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir meiri verðbólgu. Það orsakast af því að verðmætasköpun hefur verið meiri hér á landi en í samanburðarlöndum með tilheyrandi eftirspurn eftir starfsfólki og launaþrýstingi. Launabreytingar á vinnumarkaði höfðu hins vegar verið langt umfram það svigrúm sem verðmætasköpun hafði gefið tilefni til.

Þá lá einnig fyrir að ef okkur tækist að ná tökum á verðbólgunni og vextir myndu lækka um eitt prósentustig, þá myndi það skila 33 þúsund krónum í vasa heimilis með 40 milljóna króna húsnæðislán. Það sem meira máli skiptir er að þegar verðbólgan loks hættir að bíta mun meira fást fyrir minna sem væri sannanlega allra hagur.

Hvað ber í milli?

Á haustmánuðum létu Samtök atvinnulífsins Gallup gera könnun á meðal atvinnulífs og almennings. Niðurstöðurnar voru kynntar á Ársfundi atvinnulífsins í október og reyndist mikil samstaða vera á milli hópanna um hvað ætti að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum.

Yfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja SA og almennings nefndu samninga sem stuðli að lækkun vaxta og verðbólgu og samninga sem varðveiti kaupmátt og tryggi störf. Um það bil helmingur beggja hópa nefndu svo sérstaka hækkun lægstu launa umfram almennar launabreytingar sem áhersluatriði í komandi kjarasamningum.

Á hvað af eftirfarandi finnst þér að vinnuveitendur eigi að leggja mesta áherslu í næstu kjarasamningum?

Heimild: Gallup.

Meirihluti almennings taldi lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitenda. Aftur á móti taldiyfirgnæfandi meirihluti aðildarfyrirtækja SA, eða yfir 80%, lítið eða ekkert svigrúm vera til launahækkana.

Er mikið, nokkuð, lítið eða ekkert svigrúm til launahækkana í fyrirtækinu?

Viðhorfshópur Gallup fékk spurninguna: Er mikið, nokkuð, lítið eða ekkert svigrúm til launahækkana hjá þínum vinnuveitenda?
Heimild: Gallup.

Þegar fólk var beðið um að tilgreina nánar hversu mikið svigrúm það teldi vera til launahækkana hjá sínum vinnuveitenda árið 2024 sagði nærri helmingur almennings svigrúmið vera innan við 4%. Þegar svarendur voru beðnir um að tilgreina nánar hversu mikið svigrúm það teldi vera til launahækkana árið 2024 sögðu 73% aðildarfyrirtækja SA svigrúmið vera innan við 4%, þar af sögðu 23% svigrúmið vera á bilinu 0-0,9% og 21% sögðu það vera á bilinu 2-2,9%.

Hversu mikið svigrúm telur þú vera til launahækkana í þínu fyrirtæki árið 2024?

Viðhorfshópur Gallup fékk spurninguna: Hversu mikið svigrúm telur þú vera til launahækkana hjá þínum vinnuveitenda árið 2024?
Heimild: Gallup.

Einungis 21,2% almennings og 4,2% aðildarfyrirtækja SA vildu að stefnt yrði að skammtímasamningi (<2 ár). Tæplega helmingur almennings vildi að stefnt yrði að samningi til þriggja ára eða lengur á meðan rúmlega 80% sama hóps vildi að samið yrði til tveggja ára eða lengur. Á meðal aðildarfyrirtækja SA ríkti einnig mikill vilji til langtímasamninga, en þar vildu 80% svarenda að samið yrði til þriggja ára eða lengur. Þegar horft var til tveggja ára eða lengur jókst hlutfallið í tæp 96% á meðal aðildarfyrirtækja SA.

Hvað finnst þér að eigi að stefna að löngum kjarasamningum í komandi kjaraviðræðum?

Heimild: Gallup.

Mikill samhljómur í kringum landið

Í kjölfar Ársfundar atvinnulífsins lögðu SA af stað í hringferð um landið. Samtökin komu víða við og heimsóttu Selfoss, Reykjanesbæ, Egilsstaði, Ísafjörð, Borgarnes, Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjar. Fundirnir voru vel sóttir og ræddu þátttakendur hvernig ná mætti verðstöðugleika, sem leitt gæti til lægra vaxtastigs. Fyrst var því velt upp hvað aðilar vinnumarkaðarins gætu gert til að ná því markmiði, því næst stjórnvöld og að lokum almenningur og einstaka atvinnurekendur. Það sem einkenndi fundina var hversu mikill samhljómur var á meðal gesta um þær áskoranir sem framundan eru og leiðirnar fram á við.

Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila

Á milli jóla og nýárs tóku Sam­tök at­vinnu­lífs­ins, breiðfylk­ing lands­sam­banda og stærstu stétt­ar­fé­laga á al­mennum vinnu­markaði hönd­um sam­an um að gera lang­tíma­kjara­samn­inga sem eiga að auka fyr­ir­sjá­an­leika og stöðug­leika i efna­hags­líf­inu. Mikil samstaða var á meðal samningsaðila um að mikilvægasta verkefni komandi kjaraviðræðna væri að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi. Samningsaðilar skoruðu á fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að styðja við markmið kjarasamninganna með því að halda aftur af launaskriði, gjaldskrár- ogverðhækkunum.

Til að það markmið náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð.

Degi síðar samþykkti stjórn Samtaka atvinnulífsins áskorun til aðildarfélaga sinna, annarra fyrirtækja landsins, ríkis og sveitarfélaga um að styðja við sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði, eins og þeim frekast er unnt.

Samningsmarkmiðin eru langtímakjarasamningar sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.

Þrátt fyrir einlægan samningsvilja allra aðila og að lagt hafi verið upp með nýtt vinnulag í viðræðunum, þá tóku þær á sig breytta mynd þegar þeim var vísað til ríkissáttasemjara þegar líða tók á janúar. Mikið var undir og áhugi almennings og fjölmiðla í takt við það. Aftur á móti stóð yfir fjölmiðlabann frá því kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara. Eftir mánuð af samningafundum í Karphúsinu ákvað VR að slíta sig frá breiðfylk­ingu stétt­ar­fé­laga. Þá stóðu Starfs­greina­sam­bandið, Efl­ing og Samiðn eftir í breiðfylkingunni og héldu ótrauð áfram viðræðunum við SA.

Samið um stöðugleika á almennum vinnumarkaði

Frá undirritun Stöðugleikasamningsins í Karphúsinu.

Eftir langar viðræður var langtímakjarasamningur undirritaður á milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar þann 7. mars 2024. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Við þetta tilefni lét Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hafa eftirfarandi eftir sér:

Samhljómur hefur verið milli samningsaðila um undirstöðuatriði bættra lífskjara, eitt meginmarkmið samninganna er að byggja undir efnahagslegan stöðugleika svo bæði fólk og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir sem halda. Þessi kjarasamningur markar tímamót og verður stefnumarkandi fyrir framhaldið. Ný vinnubrögð, góð samskipti og metnaður fyrir sameiginlegum markmiðum hefur skilað því að við erum sammála um svigrúm til launahækkana og hvaða launabreytingar samræmast verðstöðugleika. Launastefna samningsins og forsenduákvæðin bera þess glöggt merki.

Til að undirbyggja stöðugleika var áhersla lögð á langtímasamning til fjögurra ára. Launastefnan byggir á hlutfallslegum launabreytingum með lágmarkskrónutölu. Stöðugleikasamningurinn innifelur einnig kauptaxtaauka og framleiðniauka sem tryggir launafólki hlutdeild í aukinni verðmætasköpun. Forsendur kjarasamningsins taka mið af markmiðum um minni verðbólgu sem skapi skilyrði til þess að stýrivextir lækki. Til að styrkja forsendur og markmið kjarasamninganna mun sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa. Standist forsendur kjarasamninga ekki ber forsendu- og launanefnd að taka ákvörðun um viðbragð.

Heildstæð launastefna grundvallast á sátt og samstöðu

Frá undirritun langtímakjarasamnings við Fagfélögin.

Í yfirstandandi samningalotu, sem hófst haustið 2023, hafa Samtök atvinnulífsins undirritað 60 kjarasamninga sem samþykktir voru í 36 atkvæðagreiðslum, en að þessu sinni var meira um sameiginlegar atkvæðagreiðslur en verið hefur í undanförnum kjarasamningslotum. Þeir kjarasamningar sem gengið hefur verið frá ná til ríflega 110 þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Tónninn hefur verið sleginn með stefnumarkandi kjarasamningum. Þar var mörkuð launastefna sem hefur það að markmiði að verðbólga í hagkerfinu hjaðni, en til að svo megi verða þarf að fylgja stefnunni í þeim kjarasamningum sem sigla í kjölfarið.

Verkefnið er ekki búið

Vilborg Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Bravo og kaupmaður í Centró, flutti hugvekju á Stöðugleikunum á Akureyri.

Samtök atvinnulífsins lögðu mikið kapp á það með viðsemjendum sínum í vetur að gera langtímakjarasamning sem gæti byggt undir efnahagslegan stöðugleika. Það er hins vegar ekki þannig að stöðugleiki komi af sjálfu sér. Hann krefst mikillar festu og samstöðu. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningarnir verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð. Þannig náum við tökum á verðbólgunni og sköpum aðstæður fyrir lækkun vaxta.

Í ljósi þess hófu Samtök atvinnulífsins eftirfylgni sína við kjarasamningana í lok apríl undir yfirskriftinni Stöðugleikarnir. Stöðugleikarnir hófust með vel sóttum fundum á Akureyri og í Reykjavík. Þar lagði atvinnulífið, ásamt stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði og stjórnvöldum, línurnar um hvernig Stöðugleikasamningnum skuli fylgt eftir. Hvernig tryggja skuli efnahagslegan stöðugleika.

Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigríður Margrét á Stöðugleikunum í Reykjavík.