Hagvöxtur árið 2023 var með ágætum og mældist 4,1% eftir 8,9% hagvöxt árið áður. Munaði þar mest um þjónustuútflutning, sem óx um tæplega 10% milli ára, þrátt fyrir samdrátt á fjórða ársfjórðungi vergna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Fólksfjölgun var þó áfram mikil og mældist hagvöxtur á mann því nokkru minni eða um 1,5%.
Þó hagvöxtur hafi verið yfir meðallagi á árinu tók kólnunar að gæta í hagkerfinu. Eftir kröftugan vöxt einkaneyslu seinustu misserin mældist samdráttur á seinni helmingi ársins. Þá dróst fjárfesting lítillega saman eftir mikinn vöxt árið áður.
Ólíkt fyrra ári var framlag utanríkisviðskipta til landsframleiðslu jákvætt á árinu 2023, enda nálgaðist fjöldi erlendra ferðamanna fyrra hámark frá árinu 2018 og má því segja að ferðaþjónustan hafi loks náð vopnum sínum eftir strembin ár í kjölfar heimsfaraldurs.
Ársverðbólgan náði nýjum hæðum í ársbyrjun 2023 þegar hún rauf tveggja stafa múrinn og stóð í 10,2% í febrúar. Hún hjaðnaði smám saman þegar leið á árið og stóð í 7,7% í árslok. Þáttur húsnæðisverðs í verðbólgunni hefur verið þó nokkuð í umræðunni seinustu misserin og hefur Hagstofan tilkynnt um endurskoðun aðferða við mat á húsnæðislið verðbólgunnar.
Þar sem verðbólgan neitaði undan að láta og mældist á breiðum grunni, auk þess sem verðbólguvæntingar héldust háar, jók peningastefnunefnd Seðlabankans taumhaldið þó nokkuð á árinu. Meginvextir Seðlabankans fóru þannig úr 6,0% í ársbyrjun í 9,25% í ágúst í fjórum skrefum en ákveðið var að halda vöxtum óbreyttum á báðum haustfundum nefndarinnar. Raunstýrivextir miðað við verðbólgu höfðu verið neikvæðir frá árinu 2020 en með talsverðri hækkun stýrivaxta urðu þeir jákvæðir um mitt ár 2023.
Eftir að hafa hækkað um 20% á árinu 2022 og 16% árið áður hækkaði húsnæðisverð um ríflega 4% á árinu 2023. Húsnæðisverð dróst því lítillega saman að raunvirði þar sem verðbólga mældist meiri en hækkun húsnæðisverðs. Nokkuð dró úr framkvæmdum íbúða á fyrstu byggingarstigum, meðal annars sökum hás vaxtastigs og lóðaskorts. Áfram eru því horfur á að nýbygging íbúða muni ekki halda í við vaxandi þörf. Aðflutningur fólks hefur verið óvenjumikill að undanförnu og eldsumbrot á Reykjanesi með tilheyrandi tjóni á fasteignum í Grindavík juku enn á eftirspurn eftir húsnæði. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji við framboðshlið íbúðamarkaðarins með umbótum á umgjörð og regluverki húsnæðismarkaðar og auknu lóðaframboði í samstarfi við sveitarfélög.
Talsverð spenna var á vinnumarkaði á árinu og mældist atvinnuleysi 3,4% að meðaltali en meðaltal atvinnuleysis frá árinu 2011 er 4,2%. Í árslok töldu 34% atvinnurekenda að skortur væri á starfsfólki í þeirra fyrirtæki skv. könnun SA og Seðlabankans um stöðu og framtíðarhorfur í atvinnulífinu. Skorturinn mældist enn meiri haustið 2022 þegar 56% atvinnurekenda töldu skort á starfsfólki og hefur hann því farið minnkandi, en mælist enn nokkuð mikill í sögulegu samhengi, sérstaklega í byggingarstarfsemi, iðnaði og ferðaþjónustu.
Skammtímakjarasamningur var undirritaður á almenna vinnumarkaðinum í árslok 2022 sem gilti til janúar 2024. Því ríkti friðarskylda á almenna vinnumarkaðinum að megninu til á árinu 2023. Undirbúningsvinna fyrir gerð langtímakjarasamnings var þó í fullum gangi allt árið og hófust viðræður svo af krafti undir árslok, sem enduðu með gerð fjögurra ára stefnumarkandi kjarasamnings í mars 2024. Samningsaðilar lögðu áherslu á að samningarnir myndu stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta og hefur þetta innlegg til efnahagslegs stöðugleika almennt hlotið jákvæðar viðtökur.
Afkoma hins opinbera batnaði á árinu 2023 en hallinn nam 2% af vergri landsframleiðslu m.v. 4% halla árið áður. Árin þar áður nam hallinn 8-9% vegna áhrifa heimsfaraldurs. Tekjur ríkissjóðs hafa reynst umfram væntingar seinustu misserin, en engu að síður hefur reynst erfitt að ná afgangi í opinberum rekstri og eru vaxtagjöld þar orðin nokkuð þungur baggi.
Samtök atvinnulífsins hafa í umsögnum sínum um opinber fjármál lagt áherslu á aukið aðhald í opinberum rekstri, meðal annars með upptöku útgjaldareglu þar sem útgjaldavexti eru sett lögbundin takmörk. Þá væri formlegt endurmat útgjalda í stórum málaflokkum til þess fallið að skerpa á forgangsröðun og stuðla að betri nýtingu opinbers fjár. Leggja þarf mat á virkni útgjaldanna og meta hversu vel þau ná tilætluðum markmiðum til að hægt sé að tryggja ábyrga meðferð skattfjár.
Fyrirséð er að kólnun hagkerfisins muni halda áfram á árinu 2024 en markmiðið er að aðlögunin í átt að jafnvægi verði sem sársaukaminnst. Væntingar standa til þess að vaxtalækkunarferli Seðlabankans geti brátt hafist og eru langtímakjarasamningar aðila almenna vinnumarkaðarins mikilvægt innlegg í þá vegferð. Ljóst má þó vera að fleira þarf að koma til og þar mun þróun opinberra fjármála leika stórt hlutverk. Ekki má heldur gleyma að lítið eyríki í N-Atlantshafi er háðara umheiminum en mörg önnur og því munu efnahagshorfur hér á landi velta að miklu leyti á þróuninni úti í hinum stóra heimi, nú sem endranær.