Lög um jafnlaunavottun, sem var ætlað að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði, tóku gildi 1. janúar 2018. Samtök atvinnulífsins voru ekki fylgjandi lögfestingu jafnlaunastaðalsins þó þau hafi komið að mótun hans. SA hafa ítrekað bent á að innleiðing jafnlaunastaðals hefur ekki haft bein áhrif á launamun kynjanna enda er lítill sem enginn munur á þróun launa í skipulagsheildum sem hlotið hafa jafnlaunavottun og annarra, sjá grein:
Jafnlaunavottun – varnaðarorð raungerast
Í ljósi þessa hafa SA, t.d. með greinarskrifum á árinu 2023, kallað eftir endurskoðun á lögfestingu staðalsins og að vottun verði valkvæð. Í samtali við stjórnvöld hefur verið lögð áhersla á að stærðarmörk fyrirtækja verði hækkuð og að viðhaldsvottunum verði hætt.
Hver þessara athugasemda vegur þungt en mikilvægast er líklega að rík ástæða er til að efast um að lögfesting jafnlaunastaðalsins hafi marktæk áhrif á kynbundinn launamun.
SA hafa ennfremur beitt sér fyrir breytingum á skipulagi vinnumarkaðar í þágu launajafnréttis. Samtökin hafa lengi bent á að launamunur kynja undanfarin ár hefur einna helst birst í mun á heildarlaunum karla og kvenna sem endurspeglist meðal annars í þeirri staðreynd að hlutastörf eru algengari meðal kvenna en karla og að karlar vinni umtalsvert meiri yfirvinnu en konur. Það er því mikið jafnréttismál að ræða breytingar á skilgreindu dagvinnutímabili í kjarasamningum, uppgjörstímabili yfirvinnu, álagsgreiðslum og öðrum þáttum. Þessar áherslur SA hafa hlotið lítinn hljómgrunn við kjarasamningsborðið.
SA hafa tekið þátt í vinnu aðgerðahóps um launajafnrétti sem skipaður var haustið 2021. Í þeirri vinnu hafa SA lagt áherslu á að endurmat á virði kvennastarfa hljóti að fela í sér endurmat á virði starfa, óháð kyni og ef meta eigi störf sérstaklega til hærri launa á þeim grundvelli að konur sinna þeim frekar en karlar er hætt við að um það náist ekki sátt á vinnumarkaði. SA hafa því beitt sér fyrir því að skuldbinding sé forsenda sáttar þ.e. að fulltrúar launafólks skuldbindi sig til að standa vörð um endurmat á virði starfa, en það er forsenda þess að endurmat eins hóps leiði ekki til samsvarandi kröfugerðar annars.
Undanfarin ár hefur SA ásamt öðrum aðilum vinnumarkaðarins unnið með Vinnueftirlitinu að gerð fræðsluefnis og verkfærum fyrir stjórnendur og starfsfólk til að tryggja öruggt sálfélagslegt vinnuumhverfi. Lögð er áhersla á að það sé til mikils að vinna því slæmt vinnuumherfi getur valdið starfsfólki heilsutjóni og haft neikvæð áhrif á árangur, framleiðni og orðspor vinnustaða.
Á síðastliðnu ári var sérstök áhersla lögð á heilbrigða vinnustaðamenningu og samskipti sem byggja á virðingu. Heilbrigð samskipti, skýrar boðleiðar og samvinna á vinnustað auðveldar starfsfólki að vinna úr upplýsingum sem það fær, draga úr óvissu, samræma vinnuaðferðir og bæta viðhorf starfsfólks til vinnunnar og vinnustaðarins. Markvissar upplýsingar og samskipti hafa ekki einungis þýðingu fyrir skilvirkt vinnuskipulag heldur einnig þörf fólks fyrir félagsskap og öryggi. Nýtt fræðsluefni var þróað fyrir stjórnendur og starfsfólk um hvernig best sé að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu og tvenn myndbönd útbúin annars vegar um traust og hins vegar um vinnustaðamenningu.
Þegar vinnustaðamenning einkennist af trausti, virðingu, sanngirni, heiðarleika og þátttöku eykst sálfélagslegt öryggi og vellíðan starfsfólks og ljóst er að heilbrigð vinnustaðamenning er ein áhrifaríkasta forvörnin gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað.
Undir lok árs fór Vinnueftirlitið í auglýsingaherferð: Ertu í lagi eftir daginn? þar sem öryggisdansinn minnti okkur á mikilvægi vinnuverndar í daglegum störfum og um leið var fyrrnefnt fræðsluefni kynnt.
Ávinningur vinnustaða af fjölbreytileika er mikill því með fjölbreyttum mannauði eru vinnustaðir betur í stakk búnir til að takast á við fjölbreyttar áskoranir til dæmis í rekstri. Í fjölbreyttum og góðum starfshóp þekkja öll sitt hlutverk og sína stöðu og öll þurfum við, hvort sem við erum stjórnendur eða annað starfsfólk, að horfast í augu við eigin hlutdrægni þegar að fjölmenningu kemur, sjá grein hér:
SA og Fjölmenningarsetrið héldu samstarfi sínu áfram við þróun verkfæra sem stjórnendur geta notfært sér í að auka, inngilda og styrkja fjömenningu á vinnustað. Sem dæmi má nefna form af fjölmenningarstefnu, móttökuáætlun og gátlista sem stjórnendur geta nýtt sér. Á árinu var ennfremur birt fræðsluefni hvað varðar menningarnæmi og ómeðvitaða hlutdrægni.
Á undanförnum áratug hafa SA lagt sérstaka áherslu á jafnréttismál og mótað skýra stefnu í málaflokknum. Samtökin vita fullvel að athafnir verða að fylgja orðum í svo mikilvægum málaflokki og hafa því sett jafnréttismál á oddinn. Auk þess að eiga fulltrúa í ráðum og nefndum sem fjalla um jafnrétti ávinnumarkaði standa samtökin fyrir öflugri fræðslu til félagsmanna sinna um jafnréttismál.