Samtök atvinnulífsins

Samskipti og miðlun

Miðlun starfsársins helgaðist af undirbúningi, framkvæmd og eftirfylgni við kjaraviðræður þar sem efnahagslegur stöðugleiki var í forgrunni. Mánudagsmolar gegndu áfram mikilvægu hlutverki sínu þar sem félagsmenn, fjölmiðlar og aðrir fylgjendur fengu greiningar, forsendur og framvindu beint í æð í fréttapóstum. Upplýsingafundir um kjaraviðræður fyrir félagsmenn voru tíðir, en þar fylgdust hundruð félagsmanna grannt með stöðu mála hverju sinni og sérfræðingar Samtaka atvinnulífsins sátu fyrir svörum. Alls var vísað 3278 sinnum til Samtaka atvinnulífsins á starfsárinu í hefðbundnum fjölmiðlum sem er tæplega 50% aukning milli ára. 52 greinar voru skrifaðar um ólík málefni og birtust í fjölmiðlum á starfsárinu. Þrátt fyrir eril í kjarasamningum var gróska í málefnastarfi samtakanna með greiningum, umsögnum og viðburðum. 31 fundur var haldinn á starfsárinu þvert á málefni stór sem smá, eða um 3,5 viðburðir á mánuði að meðaltali.

Haust 2023: Samtaka um land allt

Það var „langferðabíll, engin rúta“.

Hringferð SA var með breyttu sniði þetta starfsárið. Samtökin héldu opna fundi hringinn í kringum landið þar sem farið var yfir stöðu efnahagsmála og komandi kjaraviðræður.

Hlaðvarp: Samtöl atvinnulífsins

Samferða því að leggja land undir fót í hringferðinni birtu Samtök atvinnulífsins hlaðvarpsviðtöl við atvinnurekendur hringinn í kringum landið. Á meðal viðmælenda var Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár, sem hafði frá mörgu áhugaverðu að segja.

Sannfæra þurfi fólk um að þetta sé það sem auki lífskjörin.

Friðrik Pálsson, eigandi Hótel Rangár.

„Við erum með kynslóð núna, ef ekki tvær, sem veit ekki almennilega hvað verðbólgan er og skilur hana ekki alveg. Það þarf að fá þessar kynslóðir til að átta sig á því – eins og hefur til dæmis verið sýnt í tölum frá Samtökum atvinnulífsins – að bara eitt prósent lækkun á vöxtum þýði 33 þúsund krónur í vasann ef þú ert með 40 milljón króna lán. Það er skylda okkar sem eru eldri og þeirra sem eru að vinna í þessu, að sannfæra fólk um að það er þetta sem eykur lífskjörin.“

Hlustaðu á Samtöl atvinnulífsins.

Gallup: Samhljómur atvinnulífs og almennings

Ársfundur atvinnulífsins: Samtaka um aukna hagsæld

Ársfundur atvinnulífsins hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur atvinnulífs og stjórnmála til að ræða brýn málefni samfélagsins og leiðir til að bæta lífskjör landsmanna.

Á haustmánuðum 2023 blasti stóra verkefnið við; kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði og grundvöllur efnahagslegs stöðugleika. Vonir stóðu til árangursríkra viðræðna sem landa myndu langtímasamningi. Efnistök ársfundarins voru því ákall um samstöðu í anda slagorðs Samtaka atvinnulífsins: Samtaka um aukna hagsæld.

Á fundinum var meðal annars rýnt í ferskar niðurstöður Gallup könnunar um launaþróun, kjaraviðræður og vinnulöggjöf. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti árlegt ávarp sitt á fundinum og púlsinn var tekinn á forystusveit Húss atvinnulífsins þvert á atvinnugreinar. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, markaði stöðuna og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, flutti jómfrúarræðu sína á þessum vettvangi.

Vetur og áramót 2023-24: Samtaka sigrumst við á verðbólgunni

Í desember fóru Samtök atvinnulífsin af stað með auglýsingaherferðina Samtaka um aukna hagsæld | Samtaka sigrumst við á verðbólgunni

Ísland er paradís á marga mælikvarða þótt það megi bæta fullt. Við berum öll ábyrgð á því að enginn líði skort.

Það getur verið hundleiðinlegt að fylgjast með umræðunni stundum. Eins og maður þurfi að vera einhver... Nóbelshagfræðingur til að átta sig á samhenginu.

Mars 2024: Stöðugleikasamningur í höfn

„Þessi kjarasamningur ryður brautina, en til að markmiðin náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð,“

Stöðugleikarnir

Hvað ef efnahagslegur veruleiki okkar byði sömu friðsæld og syngjandi heiðlóa í íslensku sumri við líðandi læk? Væri jafn taktfastur og saumavélin á vinnustofunni. Jafn stöðugur og vörubíll að flytja grjót við klettabrún.

Góður árangur kjaraviðræðna á almennum vinnumarkaði má ekki breytast í svikalogn.

Sofnum ekki á verðinum. Verkefnið er ekki búið.

Verum samtaka um aukna hagsæld.