Sögu íslenska lífeyriskerfisins má rekja til ársins 1943 þegar Alþingi setti lög um lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna, sem þá töldu um 5% starfsfólks á vinnumarkaði. Lögin tryggðu lífeyri frá 65 ára aldri, eða 95 ára samanlögðum aldri og starfsaldri og kváðu á um 4% iðgjald launamanna og 6% mótframlag ríkisins.
Árið 1955 gerðu VR og samtök atvinnurekenda kjarasamning um stofnun Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem fól í sér ávöxtun iðgjalda í söfnunarlífeyrissjóði sem myndu í fyllingu tímans standa undir lífeyrisskuldbindingum sjóðfélaga. Engin skylduaðild fylgdi þó þeim samning.
Í maí árið 1969 voru gerðir kjarasamningar um stofnun lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði og fólu þeir í sér skylduaðild félagsmanna verkalýðsfélaga. Kveðið var á um að sjóðirnir skyldu veita öllum sjóðsfélögum sama rétt fyrir sömu iðgjöld, án tillits til aldurs. Iðgjöld voru einungis greidd af dagvinnulaunum og skyldi launafólk greiða 4% og atvinnurekendur 6% mótframlag. Samtök atvinnurekenda og launafólks skuldbundu sig sameiginlega til gæslu og ábyrgðar á rekstri sjóðanna, enda sameiginlegur hagur atvinnurekenda og launafólks, og samtaka þeirra, af góðri ávöxtun og góðum lífeyri augljós. Fengu sjóðirnir stöðu sjálfseignarstofnana á forræði samningsaðila. Skylduaðild að lífeyrissjóðum var síðar lögfest árið 1974 og hún síðan gerð almenn árið 1980 þegar sjálfstætt starfandi var gert skylt að greiða í samtryggingarsjóði.
Árið 1986 var gerður kjarasamningur milli stéttarfélaga innan ASÍ og vinnuveitenda um að iðgjöld skyldu greidd af öllum launum, ekki aðeins dagvinnulaunum, frá árinu 1990. Á almennum vinnumarkaði munu fyrstu árgangarnir með full réttindi, þ.e. þeir sem greitt hafa af a.m.k. 10% iðgjald af öllum launum alla starfsævina, hefja töku lífeyris um eða upp úr árinu 2030. Segja má að lífeyriskerfið verði fullþroskað í kringum það tímamark.
Árið 1995 var gerður heilsteyptur kjarasamningur milli ASÍ og VSÍ á grunni kjarasamningsins frá 1969 um lífeyrissjóði og byggir kerfið eins og við þekkjum það í dag á þeim samning. Meginefni samningsins, að stjórnkerfiskafla undanskildum, var síðan fært í lög árið 1997. Það sama ár gerðu ríki og stéttarfélög opinberra starfsmanna kjarasamning sem fól í sér gagngerar breytingar á lífeyrismálum þeirra. Fyrra réttindakerfi var lokað og breytingar gerðar á iðgjöldum, iðgjald launafólks var áfram 4% en mótframlag ríkisins hækkaði í 11,5%. Þessar breytingar höfðu það í för með sér að opinberir lífeyrissjóðir lofuðu nú þriðjungi meiri réttindum í samanburði við þá almennu, og 65 ára lífeyrisaldri í stað 67 ára. Nánar tiltekið, m.v. 40 ára iðgjaldatímabil lofuðu opinberir sjóðir þannig 76% meðallauna á starfsævinni en almennu sjóðirnir tryggðu einungis 56% að lágmarki. Krafan um jöfnun lífeyrisréttinda milli markaða urðu sífellt háværari.
Í kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ árið 2000 var samið um 2% mótframlag atvinnurekanda gegn samsvarandi framlagi launafólks til séreignarsparnaðar, var þar stigið skref í þá átt að jafna lífeyrisréttindi milli markaða. Þau áform stóðu þó ekki lengi því skömmu síðar var samið um samskonar fyrirkomulag í kjarasamningum ríkis og sveitarfélaga. Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði árin 2004, 2005 og 2011 voru stigin frekari skref í átt að jöfnun lífeyrisréttinda þar sem mótframlag atvinnurekanda var aukið í skrefum. Lokaskrefið var svo stigið með gerð kjarasamnings milli SA og ASÍ árið 2016 þar sem mótframlag launagreiðenda var hækkað í 11,5%. Jafnframt var heimilað að hækkuninni yrði varið til séreignarsparnaðar með tilteknum skilyrðum (þ.e. svokölluð tilgreind séreign) til að auðvelda starfslok og auðvelda sveigjanleika í lífeyristöku. Þær breytingar hlutu lagastoð árið 2022 og tóku lögin gildi 1. janúar 2023.
Eins og áður segir skuldbundu samtök atvinnurekenda og launafólks sig í sameiningu til gæslu og ábyrgðar á rekstri lífeyrissjóða á samningssviði þeirra. Alls eru 21 lífeyrissjóður starfandi í dag en þeir voru 96 talsins árið 1980. Sjóðunum sem heyra undir samningssvið SA og ASÍ hefur fækkað verulega á undanförnum árum með sameiningum og eru nú sjö talsins; Birta lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Rangæinga, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Stapi lífeyrissjóður.
Eignir lífeyriskerfisins námu 7.287 ma. kr. í lok árs 2023, eða sem jafngildir 170% af vergri landsframleiðslu. Eignirnar uxu um 2% að raunvirði milli ára en við lok árs 2022 námu eignir kerfisins í heild 6.620 ma. kr. að nafnvirði. Þar af voru 5.920 ma. í samtryggingarsjóðum og 701 ma. kr. í séreignarsjóðum.
Á umliðnum árum hefur ávöxtun lífeyriskerfisins verið góð, að undanskildu árinu 2022 og 2023. Það má þó í með sanni lýsa ávöxtun ársins 2023 sem varnarsigri. Mikil óvissa ríkti á mörkuðum, stríð Rússa í Úkraínu, jarðhræringar á Reykjanesi og mikil verðbólga mörkuðu sannanlega spor sín í ávöxtun ársins. Raunávöxtun lífeyrissjóða var 4,02% síðastliðin fimm ár og 4,55% síðastliðin tíu ár og því vel umfram ávöxtunarviðmið sjóðanna sem hljóðar upp á 3,5% að raunvirði.
Árið 2022 greiddu lífeyrissjóðir 54.000 manns ellilífeyri og 10.200 manns örorkulífeyri. Síðastliðinn áratug hefur ellilífeyrisþegum fjölgað um 45% eða 4,2% árlega, og örorkulífeyrisþegum um 29%, eða 2,9% árlega. Af heildarlífeyrisgreiðslum árið 2022 voru 78% vegna ellilífeyris, 13% vegna örorkulífeyris, 8% vegna makalífeyris og 1% vegna barnalífeyris. Hefur hlutur ellilífeyris farið vaxandi síðastliðinn áratug á kostnað örorku og makalífeyris.
Íslenska lífeyriskerfið er í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem lagt hafa mestan sparnað til hliðar til að mæta áskorunum framtíðar og eru best undirbúin fyrir breytta aldurssamsetningu og meðfylgjandi þrýsting á ríkisútgjöld. Auk Íslands á Danmörk sparnað í lífeyrissjóðum sem nemur um tvöfaldri landsframleiðslu. Þrjú ríki OECD eru með sparnað sem nemur einni og hálfri landsframleiðslu, Sviss, Holland og Kanada. Bandaríkin, Ástralía og Svíþjóð, eiga lífeyrissparnað sem nemur einni landsframleiðslu. Önnur ríki eru með mun minni eða óverulegan lífeyrissparnað og því illa búin undir þær áskoranir sem eru framundan.
Ávöxtun íslenskra lífeyrissjóða hefur verið góð í alþjóðlegum samanburði og rekstrarkostnaður sjóðanna er sambærilegur við það lægsta sem gerist í öðrum ríkjum.
Sjóðssöfnun lífeyriskerfisins styrkir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og stuðlar að skilvirkari vinnumarkaði þar sem þrýstingur á skattahækkanir verður minni vegna öldrunar en í ríkjum sem eru án sjóða til að standa undir lífeyrisréttindum. Þjóðin eldist þar sem fólk lifir lengur en áður og sú þróun heldur áfram. Mikil breyting á samsetningu íbúa næstu ár og áratugi mun skapa fjölmargar áskoranir fyrir samfélagið. Starfsfólki á vinnualdri fjölgar lítið og minna en þarf til að standa undir sambærilegum hagvexti og undanfarna áratugi. Fjölgun aldraðra mun auka útgjöld heilbrigðis- og félagsþjónustu verulega og líklega langt umfram aukningu skattstofna ríkis og sveitarfélaga.
Lenging ævinnar undanfarna áratugi hefur verið mikil áskorun fyrir lífeyrissjóðina. Lenging meðalævi leiðir til þess greiða þarf hverjum og einum sjóðfélaga lífeyri í fleiri ár en gengið var út frá. Heildarskuldbindingar sjóðanna aukast og tryggingafræðileg staða versnar. Vegna góðrar ávöxtunar hefur þó ekki þurft að skerða réttindi hingað til vegna lengingar meðalævinnar.
Árið 2022 samþykkti fjármála- og efnahagsráðherra nýjar dánar- og eftirlifendatöflur. Í fyrsta sinn var nú horft til framtíðar í stað fortíðar í þeim efnum og höfðu lífeyrissjóðirnir tvö ár til að innleiða þær í tryggingafræðilegum úttektum sínum. Svo fór að sjóðirnir brugðust við innleiðingunni með mismunandi hætti. Sumir réðust í aðlögun þegar áunnina réttinda auk þess sem flestir aðlöguðu innvinnslu réttinda til framtíðar við nýjar forsendur. Auknar lífslíkur hafa það í för með sér að skuldbindingar sjóðanna aukast þar sem fjöldi eftirlaunaára verður sífellt meiri. Réttindi yngstu árganga voru því færð niður í samanburði við þá sem eldri eru þar sem lífeyrir verður greiddur til þeirra í fleiri ár en áður hafði verið reiknað með. Með því að fresta töku lífeyris fram yfir viðmiðunaraldur, sem nú er 67 ár, geta yngstu árgangarnir eftir sem áður tryggt sér hærri mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur og verið jafn vel stæðir og áður. Flest ríki sem Ísland ber sig gjarnan saman við, þ.á.m. hin Norðurlöndin, hafa enda brugðist við lengingu meðalævinnar með hækkun lífeyrisaldurs sem byggður er á spám um ævilíkur.
Deildar meiningar hafa verið uppi um hvort lögmætt hafi verið að lækka áunninn réttindi sjóðfélaga með mismunandi hætti byggt á aldri. Í tilfelli Lífeyrissjóðs verslunarmanna taldi Héraðsdómur Reykjavíkur þá aðgerð ekki standast og dæmdi sjóðfélaga í vil. Þeim dómi hefur verið áfrýjað og hefur Hæstiréttur samþykkt að taka málið fyrir. Niðurstöðu er að vænta í málinu á haustmánuðum ársins 2024.